Þjónusta og samstarf

Miðlunarstarfsemi Hagstofu Íslands var öflug og vaxandi á árinu 2023 eins og fyrri ár. Haldnir voru í upphafi árs fundir með notendahópum rannsóknasamfélagsins, stjórnsýslunnar og fjölmiðla og enn fremur fundað tíu sinnum á árnu í ráðgjafanefnd um vísitölu neysluverðs og fjórum sinnum í ráðgjafanefnd um vinnumarkaðstölfræði. Þá hélt rannsóknasamstarf Hagstofunnar við æðri menntastofnanir áfram að vaxa og dafna á árinu.

 

Ólafur Arnar Þórðarson, sviðsstjóri samskiptasviðs.

 
 

Miðlun

Hagstofa Íslands gefur svo til daglega út fréttatilkynningar árið um kring sem tengjast í flestum tilfellum uppfærslum á talnaefni stofnunarinnar. Fréttatilkynningarnar eru annað hvort í formi frétta eða stuttra fréttamola en einnig í formi Hagtíðinda eða greinargerða. Í langflestum tilfellum eru fréttatilkynningar gefnar út bæði á íslensku og ensku.

Hagstofan gaf út 740 fréttatilkynningar á árinu 2023, þar af 375 á íslensku og 365 á ensku, og fækkaði þeim lítillega frá árinu á undan. Heimsóknum á vef Hagstofunnar fjölgaði hins vegar mikið á árinu 2023 eða um 139.060 sem þýðir aukningu um 31% á milli ára.

Umfjöllun um efni Hagstofunnar í fjölmiðlum jókst að sama skapi á milli ára. Að meðaltali fjalla fjölmiðlarnir 6,3 sinnum um hverja fréttatilkynningu og uppfærslu á talnaefni sem Hagstofan birtir. Þá fjölgaði fylgjendum Hagstofunnar á samfélagsmiðlun á milli áranna 2022 og 2023 eins og verið hefur undanfarin ár.

Notendasamráð 

Hagstofan leggur ríka áherslu á að hlusta á raddir notenda hagtalna til þess að haga megi þróun og framleiðslu sem mest í samræmi við þarfir notendanna. Í upphafi árs voru haldnir notendafundir með notendahópum rannsóknasamfélagsins, stjórnsýslunnar og fjölmiðla. Á notendafundum er leitast við að fá endurgjöf á hvað notendur eru ánægðir með og hvað þeir telja að betur megi fara og er sú endurgjöf mikilvægt innlegg í starfsáætlun Hagstofunnar og stefnumótun almennt. 

Í tengslum við gæðamat Evrópska hagskýrslusamstarfsins í júní voru síðan haldnir notendafundir með greiningaraðilum, stjórnsýslu og rannsóknasamfélaginu sem hluti af gæðaúttektinni og ræddu þar úttektaaðilar við notendur. Fundirnir heppnuðust vel og var almennt góð endurgjöf og umræða á fundunum.  

Hagstofan starfrækir einnig fjórar ráðgjafanefndir en markmið þeirra er að skapa vettvang fyrir umræður um tölfræði og aðferðir sem tengist tilgreindum málaflokki. Ráðgjafanefnd um vinnumarkaðstölfræði fundaði fjórum sinnum á árinu 2023 og ráðgjafanefnd um vísitölu neysluverðs tíu sinnum.

 
 

Rannsóknasamstarf

Á árinu 2023 vann Hagstofan að þróun og uppbyggingu nýs gagnagrunns rannsóknarþjónustu sem ætlað að bæta aðgengi rannsakanda og stofnana með ríkar greiningarþarfir að gögnum stofnunarinnar. Markmiðið er að þróa tilbúnar mælingar sem rannsakendur geti sótt um aðgang að á grundvelli aðgengilegra lýsigagna. Í hinum nýja grunni verða gögn sem eiga uppruna sinn í grunnskrám eins og þjóðskrá einstaklinga, fyrirtækjaskrá og skattgrunnskrám.

Samfara þessu var hafin vinna við að endurskoða uppsetningu tæknilegs umhverfis rannsóknarþjónustu Hagstofunnar með það markmiði að auka afkastagetu sýndarsvæðis. Sökum þess að forgangur rannsóknarþjónustu miðaðist við uppbyggingu rannsóknarþjónustu voru einungis tvær nýjar umsóknir afgreiddar á árinu. Þá voru tveir nýir bakhjarlar vottaðir á árinu, hugvísindasvið Háskóla Íslands og mennta- og barnamálaráðuneytið.

Nokkur gróska hefur verið í samstarfi Hagstofunnar við æðri menntastofnanir um lokaverkefni nema. Tveir meistaranemar í hagnýtri tölfræði unnu að lokaverkefni sínu hjá Hagstofunni undir leiðsögn Önnu Helgu Jónsdóttur, dósents við raunvísindadeild Háskóla Íslands. Einnig skrifaði Hagstofan undir viljayfirlýsingar um samstarf um nema við heilbrigðisvísindasvið og sálfræðideild Háskóla Íslands.