Skýrsla stjórnar
Hagstofa Íslands tók í notkun nýtt skipulag á árinu 2023 með það fyrir augum að gera stofnunina betur í stakk búna til þess að takast á við þær áskoranir sem felast í aukinni spurn eftir áreiðanlegum og nákvæmum upplýsingum sem nýtast stjórnvöldum, atvinnulífi og almenningi til ákvörðunartöku.
Á árinu 2023 tók Hagstofa Íslands í notkun nýtt skipulag sem markar tímamót í uppbyggingu og starfsemi stofnunarinnar. Kjarnastarfseminni var skipt upp í þrjú svið, gögn, greiningar og samskipti, sem endurspeglast í nýju skipuriti. Önnur starfsemi skiptist i fjármálasvið og þrjár stoðdeildir, upplýsingatækni, mannauð og þróun. Þróunardeildin var sett á laggirnar til að styðja við nýsköpun í hagskýrslugerðinni, ásamt innleiðingu stafrænnar stefnu. Í framkvæmdastjórn sitja hagstofustjóri, sviðsstjórar kjarnasviða og sviðsstjóri fjármálasviðs. Í nýja skipulaginu er lögð áhersla á skýrari ábyrgð, hlutverk og vinnulag sem eflir samvinnu á milli skipulagsheilda og árangursmiðaða vinnustaðamenningu.
Breytt skipulag tekur mið af því að gera Hagstofuna betur í stakk búna til þess að takast á við þær áskoranir sem felast í aukinni spurn eftir áreiðanlegum og nákvæmum upplýsingum sem nýtast stjórnvöldum, atvinnulífi og almenningi til ákvörðunartöku. Hraðar samfélagsbreytingar og stafræn umbreyting hafa veitt gögnum aukið samfélagslegt mikilvægi og til að geta mætt þörfum samfélagsins fyrir hágæðaupplýsingar úr gögnum í nútíð og framtíð þarf Hagstofan að taka breytingum í takt við þá þróun, ekki síst þegar horft er til framtíðar. Framtíðarsýn Hagstofunnar er að vera framsækin þekkingarmiðstöð sem veitir góða þjónustu og stuðlar að upplýstu samfélagi.
Lögð hefur verið áhersla á vönduð og fagleg vinnubrögð í breytingarferlinu, þekkingarmiðað starfsumhverfi og samræmda gagnainnviði ásamt skilvirkri úrvinnslu. Með því er hægt að tryggja að notendur fái áreiðanlegar upplýsingar eins fljótt og auðið er en einnig að þær búi yfir innra samræmi og séu samanburðahæfar. Á árinu 2023 var sérstök áhersla lögð á uppbyggingu tækniinnviða sem hluta af innleiðingu stafrænnar stefnu. Sú áhersla mun haldast óbreytt en aukin áhersla verður sett á uppbyggingu gagnainnviða enda ljóst að góðir og samræmdir tækni- og gagnainnviðir eru lykill að umbótum í hagskýrslugerð til að hámarka notagildi gagna og skapa ný verðmæti. Þá er mikilvægt að ná aukinni skilvirkni í rekstri þar sem Hagstofan stendur frammi fyrir miklum áskorunum við að ná sjálfbærum rekstri. Ein af þeim áskorunum felst í kröfum í samstarfi um opinbera hagskýrslugerð á evrópskum vettvangi um samanburðarhæfar hagtölur á milli EES-ríkja.
Árið 2023 einkenndist, líkt og fyrri ár, af öflugu alþjóðlegu samstarfi, einkum á evrópskum vettvangi sem fullgildir meðlimir í EES-samstarfi um opinbera hagskýrslugerð. Á árinu fór fram ítarleg gæðaúttekt á íslenska hagskýrslukerfinu þar sem markmiðið var að meta hvort það uppfyllti meginreglur evrópskrar hagskýrslugerðar – úttekt sem er framkvæmd reglulega á meðal hagstofa í Evrópu sem aðild eiga að Evrópska hagskýrslusamstarfinu. Niðurstöðurnar sýndu að Hagstofan gegnir lykilhlutverki í íslensku hagskýrslukerfi, nýtur mikils trausts og að lög um stofnunina tryggi sjálfstæði hennar og örugga meðhöndlun gagna. Fagmennska þótti einkenna starfsemi stofnunarinnar sem og hátt menntunarstig starfsfólks og mikil aðlögunarhæfni.
Afar ánægjuleg niðurstaða í úttektinni var að íslensk hagskýrslugerð, bæði hjá Hagstofunni og öðrum framleiðendum evrópskra hagtalna á Íslandi, væri í góðu samræmi við meginreglur í hagskýrslugerð en jafnframt var bent á nokkrar áskoranir. Þar vegur þyngst smæð landsins og Hagstofunnar sem hefur sömu skuldbindingar og aðrar stærri hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu. Bent var á mikilvægi þess að tryggja rekstur Hagstofunnar svo stofnunin geti staðið við skuldbindingar Íslands sem og að samræma hagskýrslukerfi á landsvísu sem nái til allra innlendra framleiðanda hagtalna. Þá þurfi að skýra hlutverk hvers og eins aðila í þeim efnum. Í úttektinni voru birtar alls 17 ábendingar um það sem betur mætti fara í íslenskri hagskýrslugerð og þar af sneru tvær að bættri framfylgni á meginreglunum.
Almennt voru ábendingar í úttektinni mjög uppbyggilegar og í anda þeirra vegferðar sem Hagstofan er á. Ein ábendingin tók undir mikilvægi þess að Hagstofan héldi áfram innleiðingu á umbótaráætlun sinni tengt sérhæfingu í verkinnuferlum sem stofnunin hafði sett af stað með nýju skipulagi árið 2023 ásamt staðlaðri stöðlun högun gagna og og upplýsinga ferla sem eru ein af lykiláherslum Hagstofunnar.
Annað
Forsætisráðherra heimsótti Hagstofuna
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti Hagstofu Íslands 17. febrúar. Fundaði hún með Hrafnhildi Arnkelsdóttur hagstofustjóra og framkvæmdastjórn Hagstofunnar. Forsætidráðherra ræddi síðan við starfsmenn stofnunarinnar og kynnti sér starfsemi hennar.
Hagstofan í samstarf við landlæknisembættið
Hagstofa Íslands undirritaði í marsmánuði samkomulag um samstarf við embætti landlæknis. Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri og Alma Möller landlæknir undirrituðu samkomulagið en með því er stefnt að því að bæta samstarf stofnananna á sviði hagskýrslugerðar.
Greindu betur
Greindu betur, undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar hér á landi, fór fram á árinu 2023 í annað sinn. Keppt var líkt og áður í tveimur flokkum, yngri flokki (9.-10. bekkur í grunnskóla) og eldri flokki (1.-2. ár í framhaldsskóla).
Fyrsta sætið í yngri flokknum hlaut liðið KÁRSNES 13 frá Kársnesskóla í Kópavogi, í öðru sæti varð liðið NAMMINAMM frá Austurbæjarskóla í Reykjavík og í því þriðja liðið KRÓNURNAR frá Garðaskóla í Garðabæ. Þá bar liðið STATISTICA frá Verzlunarskóla Íslands sigur úr býtum í eldri flokknum.
Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri veitti sigurliðunum verðlaun.