Frá hagstofustjóra

Með því sem hvað hæst bar í starfsemi Hagstofu Íslands á árinu 2023 var annars vegar umfangsmiklar skipulagsbreytingar og hins vegar evrópsk gæðaúttekt sem framkvæmd er með reglubundnum hætti af óháðum sérfræðingum á starfsemi hagstofa sem aðild eiga að Evrópska hagskýrslusamstarfinu.

Hrint var í framkvæmd skipulagsbreytingum á Hagstofunni á árinu 2023 sem miða að því að gera stofnunina betur í stakk búna til þess að anna spurn eftir áreiðanlegum og nákvæmum upplýsingum sem nýtast stjórnvöldum, atvinnulífi og almenningi til ákvörðunartöku.

Mikilvægi áreiðanlegra hagtalna fer stöðugt vaxandi bæði hér á landi og erlendis samhliða síauknu aðgengi að upplýsingum sem oft reynast ekki mjög ábyggilegar. Ljóst er að hagstofur, sem framleiðendur hlutlægra opinberra hagtalna, gegna sífellt mikilvægara hlutverki við þær aðstæður og tekur Hagstofan hlutverk sitt í þeim efnum sem fyrr mjög alvarlega.

Skipulagsbreytingarnar, sem fólu í sér mikla breytingu frá fyrra skipulagi, tóku gildi frá 1. apríl og var unnið að mönnun hlutverka og innleiðingu á nýju skipulagi allt árið. Megin breytingin er að núverandi skipurit er byggt á virkni eininga frekar en efnisflokkum líkt og áður var með kjarnasvið hagskýrslugerðar í öndvegi. Stafræn umbreyting Hagstofunnar hverfist um samræmingu gagna og innleiðingu á góðum gagnainnviðum og hófst undirbúningur þess í lok ársins.

Unnið var að hagtölugerð að fullum krafti samhliða breytingum og sýndi mannauður Hagstofunnar mikla útsjónarsemi og þrautseigju á árinu. Ég kann þeim miklar þakkir fyrir það.

Hagstofan fékk heimsókn frá úttektarteymi á vegum evrópsku hagstofunnar Eurostat en tilgangur heimsóknarinnar var að skoða hlítingu Hagstofunnar við gæðaramma evrópskrar hagskýrslugerðar, svokallaðar meginreglur í hagskýrslugerð (e. Code of Practice). Niðurstöður voru almennt jákvæðar og heimsóknin mjög gagnleg þar sem úttektarteymið gerði tillögur að umbótatillögur sem unnið verður að á næstu árum.

Hagstofan átti mörg áhugaverð samtöl og ráðslag við notendur á árinu í þeim tilgangi að bæta framboð af hagtölum sem nýtast íslensku samfélagi sem best. Enn fremur var Hagstofan í beinu sambandi við fjölda einstaklinga, heimila, fyrirtækja og stofnana vegna gagnasöfnunar og verður þeim seint fullþakkað gott samstarf á árinu.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri

 

Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.