Fjármál og rekstur
Rekstarniðurstaða Hagstofu Íslands árið 2023 var jákvæð um 6 m.kr. Heildartekjur námu 2.034 m.kr. og heildargjöld voru 2.028 m.kr. Eigið fé Hagstofunnar nam í árslok 111,7 m.kr.
Rekstrartekjur
Heildartekjur Hagstofu Íslands námu 2.034 m.kr. og jukust um 4% frá fyrra ári. Framlag úr ríkissjóði hækkaði úr 1.645 m.kr. í 1.736 m.kr. eða um 5,5%. Þar af nam fjárfestingaframlag 23,1 m.kr. og tekjufærsla frestaðra tekna á afskriftum 20,3 m.kr.
Sértekjur Hagstofunnar námu 298 m.kr. sem er um 3% lækkun á milli ára en árið áður námu þær 308 m.kr. Sértekjur Hagstofunnar nema um 15% af heildartekjum. Lækkun sértekna skýrist einna helst af lækkun vegna styrkja frá Eurostat sem kláruðust á árinu en styrkir frá Eurostat námu 86 m.kr. á árinu og 134 m.kr. árið áður. Sveiflur í þessum tekjuflokk eru jafnan miklar á milli ára. Tekjur vegna sérfræðiþjónustu Hagstofunnar námu 128 m.kr. og hækkuðu um 49 m.kr. á milli ára, einkum vegna innlendra samninga.
Skipting sértekna
Þjónustusamningar 65 m.kr.
Seld þjónusta 128 m.kr.
Styrkir vegna samninga við Eurostat 86 m.kr.
Aðrar tekjur 18 m.kr.
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld ársins námu um 2.028 m.kr. með afskriftum, gjöld jukust um 41 m.kr. á milli ára eða 2%. Stærsti útgjaldaliður Hagstofunnar var sem fyrr launakostnaður sem nam um 84% af rekstrargjöldum ársins. Launakostnaður hækkaði um 64 m.kr. á milli ára sem nemur 4% hækkun. Húsnæðiskostnaður var annar stærsti útgjaldaliðurinn og nam hann um 7% af rekstrargjöldum.
Skipting gjalda
Laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnaður 1.708 m.kr.
Húsnæðiskostnaður 136 m.kr.
Aðkeypt þjónusta 107 m.kr.
Ferðakostnaður, námskeið og fundir 25 m.kr.
Almenn rekstrargjöld 25 m.kr.
Verkkaup 6 m.kr.
Afskriftir 20 m.kr.
Bókfærð eignakaup
Fjárfestingaframlag ársins var 23,1 m.kr. Eignakaup eru færð til eignar og afskrifuð yfir líftíma eignar. Kaupverð varanlegra rekstrarfjármuna nam 26,6 m.kr. og afskriftir 20,3 m.kr.